Verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni
Verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni

Laugardaginn 14. júní sl. útskrifaðist flottur hópur með MBA frá Executive MBA í Háskóla Íslands. MBA HÍ Alumni hefur þann sið að verðlauna framúrskarandi lokaverkefni við þetta tilefni. Í valnefndinni þetta árið voru Jóhanna Erla Jóhannesdóttir, stjórnarformaður félagsins, Vilhjálmur Bergs, stjórnarmaður í félaginu, og Gyða Hlín Björndóttir, sem situr í stjórn Executive MBA.
Við val sitt horfði valnefndin til hagnýts gildis verkefnisins, hvernig verkfærin úr náminu væru nýtt og unnið væri með tengsl og samstarf við íslenskt atvinnulíf. Það sem er einkar áhugavert við verkefnið er að það hefur víðtæka skírskotun og nýtist þannig ekki einungis því fyrirtæki sem fjallað er um heldur einnig öðrum íslenskum fyrirtækjum í sömu stöðu. Í umsögn um verkefnið segir m.a. að efnistök séu í alla staði metnaðarfull og byggi bæði á fræðilegri umfjöllun og hagnýtri greiningu með skýrri tengingu við raunverulegt viðfangsefni í íslensku atvinnulífi. Ritgerðin er metnaðarfull og vönduð og sýnir að höfundur hefur lagt mikla vinnu í bæði greiningu og úrvinnslu gagna. Höfundur nær að draga fram mikilvæga innsýn í flókin viðskiptaleg viðfangsefni á aðgengilegan hátt. Verkefnið spannar fjölbreytt þekkingarsvið, allt frá stefnumótun og markaðsfræði til rekstrargreiningar og áhættumats. Þessi nálgun er gott dæmi um hvernig MBA-nám getur nýst sem brú milli fræða og atvinnulífs.
Verkefnið sem varð fyrir valinu heitir „Stefnumótun fyrir útflutning COLLAB til Danmerkur. Næsti einhyrningur Íslands?“ og er höfundur þess Erna Hrund Hermannsdóttir. Ritgerðin fjallar um stefnumótandi nálgun við útflutning COLLAB og hefur það að markmiði að kortleggja þau skref sem nauðsynleg eru til vaxtar á alþjóðlegum markaði.









