VERÐLAUN
Verðlaun MBA félagsins 2019
Sesselja Barðdal hlaut viðurkenningu MBA HÍ félagsins fyrir framúrskarandi lokaverkefni í MBA náminu árið 2019
Lokaverkefnið var að mati dómnefndar afskaplega vel unnið verkefni á sviði nýsköpunar.
Yfirskrift þess er Mjólkurböð í Eyjafjarðarsveit og hlaut Sesselja einkunina 9,5.
Um er að ræða áhugavert nýtt þjónustuframboð í íslenskri ferðamennsku og var víða leitað fanga við greiningu á tækifærinu. Frumleiki og sjálfstæð hugsun einkennir verkefnið. Markmið eru vel skilgreind, spurningar sem leitað er svara við eru skýrar, þeim er svarað skilmerkilega og dregnar eru ályktanir í samræmi við gögn sem aflað var. Efnistök eru kerfisbundin og
höfundur gerir glögga grein fyrir þeim og fer eftir því sem hann boðaði. Niðurstaðan verkefnisins staðfestir tilgátuna og kemur einnig fram með nýjar hagnýtar upplýsingar. Tækifærið er lofandi og vonandi að innlendir og erlendir ferðamenn fái notið í framtíðinni.
Dómnefndina skipuðu:
Þórlaug Jónatansdóttir, gjaldkeri Félags MBA –HÍ.
Svala Guðmundsdóttir, forstöðumaður MBA námsins.
Ingi Rúnar Eðvarsson, prófessor í stjórnun og forseti Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.
Lísbet Einarsdóttir formaður félagsins afhenti verðlaunin.
Verðlaun MBA félagsins 2018
MBA félagið veitti verðlaun við brautskráningu MBA-nemenda sem fór fram 23. júní 2018 við hátíðlega athöfn til þess nemanda sem þótti skrifa besta lokaverkefnið. Halldór Eyjólfsson hlaut þau verðlaun með verkefninu sínu; Deilihúsnæði: Raunhæfur kostur á íslenskum íbúðamarkaði?
Í umsögn um verkefnið segir:
Að finna nýjar lausnir á íslenskum húsnæðismarkaði er mikilvægt og verðugt verkefni. Ein möguleg lausn er deilihúsnæði, íbúðir sem skipulagðar eru sérstaklega fyrir nokkra íbúa með bæði sameignar- og séreignarsvæðum, og í þessu verkefni er sú lausn rannsökuð í þaula.
Verkefnið er einstaklega vel og faglega unnið í alla staði. Helstu styrkleikar þess eru að höfundur nýtir margar leiðir til að skoða tækifærið frá mismunandi sjónarhornum og setja þannig fram mjög heildstæða mynd. Heimildir eru nýttar til að skapa traustan grunn undir rannsóknina, bæði fræðilegar og tölulegar. Í kjölfarið er fjallað um þá rannsókn sem gerð var, og var hún í þremur þáttum: Fyrst voru tekin viðtöl við mögulega viðskiptavini, því næst var framkvæmd megindleg rannsókn þar sem ítarleg könnun var lögð fyrir tvo mismunandi úrtakshópa, og að endingu voru tekin viðtöl við ýmsa aðila sem gátu varpað ljósi á fýsileika þess að hrinda hugmyndinni í framkvæmd. Sérhver þáttur rannsóknarinnar hafði vel tilgreint markmið og var vel framkvæmdur. Greining á gögnum úr hverjum þætti var einnig með ágætum og niðurstöðurnar skýrt fram settar. Þegar við bætist hversu vel þessir þættir falla saman verður afraksturinn mjög sannfærandi fyrir lesandann. Endahnúturinn er bundinn með því að setja fram frumgerð sem hægt er að nýta við áframhaldandi þróun hugmyndarinnar.
Allur frágangur skýrslunnar að auki er til algerrar fyrirmyndar, uppbygging er skipulögð, texti flæðir vel og öll framsetning á niðurstöðum dregur fram aðalatriðin eins og best verður á kosið.
Jón Trausti Sæmundsson afhenti verðlaunin.
Verðlaun MBA félagsins 2017
Böðvar Gunnarsson hlaut viðurkenningu MBA HÍ félagsins fyrir framúrskarandi lokaverkefni í MBA náminu árið 2017, en hann hlaut einkunnina 9,5 fyrir verkefnið Griðarstaður í íslenskri sveit: heima að heiman
Umsögn dómnefndar fyrir veitingu viðurkenningar Félags MBA um framúrskarandi lokaverkefni í MBA námi Háskóla Íslands árið 2017:
Lokaverkefnið sem fær viðurkenninguna árið 2017 er að mati dómnefndar afskaplega vel unnið verkefni á sviði nýsköpunar. Frumleiki og sjálfstæð hugsun einkennir verkefnið. Markmið eru vel skilgreind, spurningar sem leitað er svara við eru skýrar, þeim er svarað skilmerkilega og dregnar eru ályktanir í samræmi við gögn sem aflað var. Efnistök eru kerfisbundin og höfundur gerir glögga grein fyrir þeim og fer eftir því sem hann boðaði. Niðurstaðan verkefnisins staðfestir tilgátuna og kemur einnig fram með nýjar hagnýtar upplýsingar. Að þessu leyti ber verkefnið vitni um að höfundur kann vel til verka og skýrir af sér góða fagmennsku.
Dómnefndina skipuðu:
- Þórlaug Jónatansdóttir, gjaldkeri Félags MBA –HÍ, markaðs- og kynningastjóri Viðskiptafræðideildar
- Arnheiður Guðmundsdóttir , framkvæmdastjóri Skýrslutæknifélags Íslands
- Magnús Pálsson, forstöðumaður MBA námsins.
- Ingi Rúnar Eðvarsson, prófessor í stjórnun og forseti Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands.
Myndina tók Kristján Maack